Slit á óvígðri sambúð

Þegar fólk stofnar til óvígðrar sambúðar er það venjulega ætlun aðila að láta sambúðina endast eða ganga í hjónaband í lok sambúðartímans.
Engu að síður er það staðreynd á Íslandi að u.þ.b. 700 sambúðarslit eru skáð hjá Hagstofu á ári hverju.
Þegar fólk í óvígðri sambúð slítur henni þarf að ganga frá skiptingu eigna og skulda ef þær eru til staðar.
Ekki hafa verið sett lög um réttarstöðu sambúðarfólks, eins og fólks sem er í hjúskap og er því verulegur munur á því hvort fólk er gift eða býr í óvígðri sambúð.
Helsti munurinn er að í óvígðri sambúð:
Skiptast eignir og skuldir ekki til helminga.
Enginn erfðaréttur er milli sambúðarfólks.
Við andlát annars sambúðaraðila myndast ekki réttur fyrir hinn til að sitja í óskiptu búi.
Hvernig getur fólk tryggt rétt sinn þegar það er í óvígðri sambúð?
Vilji sambúðarfólk arfleiða hvort annað þarf það að gera erfðaskrá.
Sambúðarfólk getur gert með sér sérstakan samning sem tekur til eigna og skulda aðila í sambúðinni.
Ef ekki nýtur við sérstaks samnings þegar fólk slítur sambúð og fólk verður ekki sammála um skiptingu eigna og skulda með eða án aðstoðar lögmanna, verður að vísa skiptingu eigna og skulda í opinber skipti.
Við mat á því hvernig haga skuli skiptum milli sambúðarfólks er tekið tillit til þess hvort aðilar voru með sameiginlegan fjárhag, lengdar sambúðar, fjárframlög hvors aðila um sig til kaupa á eignum og framlaga sem felast í vinnu á heimili.