Skiptastjórn í dánarbúum

Opinber skipti á dánarbúi

Hverjir geta krafist opinberra skipta:

Ef skiptum á dánarbúi er ekki lokið skv. töluliðum 1-3 hér að framan skal sýslumaður krefjast opinberra skipta á dánarbúi í eftirfarandi tilvikum:
1. Hafi hinn látni mælt fyrir um opinber skipti í erfðaskrá.

2. Hafi ekki verið upplýst um neinn erfingja þannig að ætla megi að arfur muni falla til ríkisins.

3. Ef vafi er á um hverjir eru erfingjar.

4. Ef einhver eða einhverjir erfingja vilja ekki ljúka skiptum með öðrum hætti.

5. Hafi sýslumaður hafnað beiðni um leyfi til einkaskipta eða fellt slíkt leyfi niður.

6. Hafi erfingjar ekki orðið við áskorun sýslumanns um að ljúka skiptum með öðrum hætti.
Auk sýslumanns geta eftirtaldir aðilar einnig krafist opinberra skipta:
1. Erfingi dánarbús.

2. Sá sem tilnefndur er í erfðaskrá til að annast skiptin.

3. Kröfuhafi sem á gjaldfallna kröfu á hendur dánarbúinu hafi skiptum ekki lokið eða erfingjar fengið leyfi til einkaskipta innan 6 mánaða frá andláti.

Skiptakostnaður:

Skiptakostnaður vegna opinberra skipta greiðist af dánarbúinu.  Hrökkvi eignir dánarbúsins ekki til þá ber sá sem krafðist opinberra skipta ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar.
Kröfu um opinber skipti skal beina til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir.  Ef Héraðsdómur úrskurðar að búið skuli tekið til opinberrra skipta þá skipar hann jafnframt skiptastjóra til að sjá um skiptin.
Skiptastjóri skal boða erfingja til skiptafundar og halda þá svo oft sem þurfa þykir.  Skiptastjóri skal afla upplýsinga um eignir búsins og skuldir þess.
Meðan á opinberum skiptum stendur fer skiptastjóri með forræði dánarbúsins og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess.


Lok opinberra skipta geta verið með fernum hætti:


1.  Skuldir dánarbúisns eru umfram eignir þess.
  Skiptastjóri skal greiða skiptakostnað og skuldir að því leiti sem eignir hrökkva til.


2.  Maki fær leyfi til setu í óskiptu búi.
  Hafi sá látni verið í hjúskap og erfingjar hans hafa tekið á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins eða skuldbindingar efndar  og maki þess látna óskar þess að sitja í óskiptu bú með einhverjum samerfingja sinna eða þeim öllum þá skal skiptastjóri, ef hann telur skilyrðum laga fullnægt fyrir slíkri heimild, senda þeim sýslumanni, sem skiptin áttu undir, umsókn makans um leyfi til setu í óskiptu búi.  Veiti sýslumaður leyfið skal skiptastjóri ljúka opinberum skiptum.


3.  Erfingjar fá leyfi til einkaskipta.
  Erfingjar geta óskað eftir leyfi til einkaskipta að ákv. skilyrðum uppfylltum.  Skal skiptastjóri, telji hann skilyrði fyrir hendi, senda beiðni erfingjanna til sýslumanns og ljúka skiptum veiti sýslumaður leyfi til einkaskipta.


4. Frumvarp til úthlutunar úr dánarbúi.
  Ef skiptum lýkur ekki með einhverjum framangreindra hátta skal skiptastjóri gera frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu, í samræmi við erfðareglur og boða erfingja til skiptafundar.  Þar skal þeim gefinn kostur á að mótmæla frumvarpinu.  Samþykki erfingjar frumvarpið skal skiptum á dánarbúinu lokið með þeim hætti sem greinir í frumvarpinu. Skiptastjóri greiðir erfðafjárskatt og erfingjum arf í samræmi við frumvarpið.