Réttargæsla

Réttargæslumaður brotaþola

Árið 1999 voru gerðar veigamiklar breytingar á lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Meginmarkmið þeirra breytinga var að styrkja réttarstöðu brotaþola en brotaþolar eru þeir sem hafa verið þolendur afbrota, t.d. kynferðisbrota eða líkamsmeiðinga.

Breytingarnar fólu meðal annars í sér að brotaþoli á, við nánar tilgreindar aðstæður, rétt á því að fá lögmann, sér að kostnaðarlausu, til að gæta hagsmuna sinna í opinberu máli.

Ef rannsókn máls beinist að kynferðisbrotum skv. 20. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er skylt að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef brotaþoli óskar þess. Ef brotaþoli hefur orðið fyrir kynferðisbroti og hefur ekki náð 18 ára aldri er skylt að tilnefna honum réttargæslumann hvort sem hann óskar þess eða ekki. Í öðrum tilvikum er heimilt að tilnefna réttargæslumann að uppfylltum þröngum skilyrðum. Lögreglu er skylt, eftir því sem við á, að leiðbeina brotaþola um þessi réttindi sín.

Réttargæslumanni er ávallt heimilt að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola.

Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum þá aðstoð í málinu sem krafist verður af löglærðum málsvara. Sérstaklega hvílir sú skylda á réttargæslumanni að móta einkaréttarkröfur fyrir brotaþola, koma þeim á framfæri við ákæruvaldið og fylgja þeim síðan eftir fyrir dómi. Einkaréttarkröfur eru fjárkröfur/bótakröfur sem eiga rót að rekja til refsiverðs verknaðar.

Hinn refisverði verknaður er rannsakaður af lögreglu og ef talið er að málið sé líklegt til sakfellis gefur ákæruvaldið út ákæru á hendur sakborningi og er það því ákæruvaldið sem gerir refsikröfu (t.d. fangelsisrefsing) í málinu. Réttargæslumaður gerir einkaréttarkröfu (bótakröfu) fyrir brotaþola sem verður þá hluti af málinu. Þóknun réttargæslumanns er greidd úr ríkissjóði.

Fari málið fyrir dómstóla og verði ákærði fundinn sekur og dæmdur til greiðslu skaðabóta/miskabóta er ekki þar með sagt að dómþoli sé borgunarmaður fyrir þeirri fjárhæð. Dæmin sýna að oft er dómþoli ekki borgunarmaður fyrir dæmdum bótum. Af þeim sökum var settur á fót sérstakur bótasjóður sem ábyrgist greiðslu bóta til handa tjónþola upp að ákveðinni fjárhæð.

Um bótasjóð gilda lög nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota og verður fjallað um bótasjóð sérstaklega síðar.