Kaupmálar

Með gerð kaupmála geta aðilar í hjúskap eða þeir sem hyggja á hjúskap, gert hluta af eignum sínum eða allar eignir sínar að séreignum sem munu þá ekki skiptast milli aðila komi til skilnaðar. Þannig geta aðilar samið sig að einhverju eða öllu leyti frá ofangreindri helmingaskiptareglu.

Ef mikill munur er á eignastöðu aðila við upphaf hjúskapar er æskilegt fyrir aðila að gera kaupmála.

Til að kaupmáli sé gildur þarf hann að vera skriflegur, undirritaður af báðum aðilum og vottaður með sérstakri vottun. Auk þess þarf að skrá hann í kaupmálabók hjá sýslumanni. Það fer eftir því til hvaða eigna kaupmálinn tekur hvort jafnframt þurfi að þinglýsa honum. Ef kaupmálinn tekur t.d. til fasteigna er þinglýsing jafnframt nauðsynleg.

Kostnaðarminnst er að gera kaupmála fyrir upphaf hjúskapar, þar sem þá þarf einungis að greiða fast gjald fyrir skráningu og eftir atvikum þinglýsingu, kr. 4.450 – 5.800.- (Verð árið 2007).
Sé kaupmáli hins vegar gerður í hjúskap þarf að greiða, auk ofangreinds, stimpilgjald sem er 0,4 % af því verðmæti sem getið er um í kaupamála.

Í Lögbirtingablaði er síðan tilkynnt um hvaða aðilar hafa gert með sér kaupmála.

Hægt er að breyta eða afturkalla kaupmála og skal þá gæta sömu reglna og að framan greinir.