Hjónaskilnaður

Þegar fólk gengur í hjúskap, en það gera u.þ.b. 1.500 pör árlega hér á landi, þá er það venjulega ætlun þess að láta hjúskapinn endast. Engu að síður líkur rúmlega 600 hjónaböndum með skilnaði ár hvert.

Þegar fólk sem er í hjúskap skilur þarf að ganga frá skiptingu eigna og skulda ef þær eru til staðar.

Lög nr. 31/1993 taka til réttarstöðu aðila í hjúskap.
Verulegur munur er á réttarstöðu fólks í hjónabandi og óvígðri sambúð.


Helsti munurinn er sá að i hjúskap er:

1. Gagnkvæmur erfðaréttur er milli hjóna.

2. Við andlát annars hjóna myndast réttur fyrir hinn til að sitja í óskiptu búi með sameiginlegum börnum.

3. Meginreglan við skipti á eignum og skuldum við skilnað er svokölluð helmingaskiptaregla, en samkvæmt þeirri reglu skiptast eignir að frádregnum skuldum aðila til helminga á milli þeirra.

Með gerð kaupmála geta aðilar gert hluta eða allar eignir sínar að séreignum sem munu þá ekki skiptast milli aðila komi til skilnaðar og þannig samið að einhverju eða öllu leyti frá helmingaskiptareglunni.

Ef mikill munur er á eignastöðu aðila við upphaf hjúskapar þá er æskilegt fyrir aðila að gera kaupmála. Kaupmálinn þarf að uppfylla ákveðið form og hann þarf að skrá hjá sýslumanni svo hann öðlist gildi.

Kostnaðarminnst er að gera kaupmála fyrir upphaf hjúskapar, þar sem þá þarf ekki að greiða stimpilgjald vegna skráningar kaupmálans. Sé kaupmáli hins vegar gerður í hjúskap þarf að greiða stimpilgjald sem er 0,4 % af verðmæti þess sem gert er að séreign.

Þó ekki njóti við kaupmála er í undartekningartilvikum heimilt að víkja frá helmingaskiptareglunni. Skilyrði þess eru ef skipti eru talin bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna og er í því sambandi tekið tillit til fjárhags hjóna, lengdar hjúskapar og svo ef annað hjóna kemur með verulega meiri fjármuni í upphafi hjúskapar eða hefur erft fé eða fengið að gjöf.

Ef hjón ná ekki samkomulagi um skiptingu eigna og skulda með eða án aðstoðar lögmanna við skilnað, þá getur annað hvort þeirra eða bæði krafist opinberra skipta til fjárslita hjá héraðsdómi.