Einkaskipti á dánarbúum

Leyfi til einkaskipta á dánarbúi:

Ef erfingjar hins látna eru sammála að skipta dánarbúi einkaskiptum þurfa þeir að óska eftir leyfi sýslumanns til þess.

Beiðni um leyfi til einkaskipta skal vera skrifleg, eyðublöð þess efnis er hægt að nálgast bæði á netinu svo og hjá sýslumönnum. Í beiðninni skulu koma fram upplýsingar um hinn látna, erfingja, grundvöll erfðaréttar hvers þeirra, hverjar séu eignir og skuldir búsins, yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð erfingja á öllum skuldbindingum dánarbúsins.


Með því að fá leyfi til einkaskipta takast erfingjar á hendur ábyrgð á skuldum dánarbúsins
. Það þýðir að ef skuldir dánarbúsins eru umfram eignir þess þá er hægt að ganga að erfingjum vegna þeirra.  Því er mjög mikilvægt að erfingjar geri sér grein fyrir stöðu dánarbúsins áður en þeir fá leyfi til einkaskipta.
Ef sýslumaður telur skilyrði til einkaskipta vera fyrir hendi þá veitir hann erfingjum leyfi til einkaskipta. Jafnframt ákvarðar hann erfingjum frest til að ljúka skiptum sem er venjulega ekki lengri en eitt ár.

Sýslumaður getur skilyrt leyfi til einkaskipta enn frekar ef hann telur nauðsynlegt, t.d. að erfingjar leggi fram frekari upplýsingar um eignir eða verðmæti þeirra, að erfingjar geri reglulega grein fyrir framvindu skiptanna og jafnframt að erfingjar efni tilteknar gjaldfallnar skuldbindingar eða setji tryggingu fyrir þeim.

Á meðan erfingjar hafa leyfi til einkaskipta á dánarbúi fara þeir með forræði búsins og eru einir bærir um að ráðstafa hagsmunum þess. Erfingjar verða að vera einhuga um ákvörðun vegna búsins. Ef ágreiningur rís milli erfingja við einkaskipti geta þeir leitað úrlausnar héraðsdóms um ágreiningsefnið.

Niðurfelling leyfis til einkaskipta:

Sýslumaður skal fella niður leyfi til einkaskipta og taka við forræði búsins á ný ef erfingjar ljúka ekki skiptum innan þess frests sem hann hefur veitt þeim eða þeir hlíta ekki öðrum skilyrðum sem hann hefur sett fyrir einkaskiptum.

Lok einkaskipta:

Þegar erfingjar hafa ráðið málefnum búsins til lykta skulu þeir skila sýslumanni einkaskiptagerð auk erfðafjárskýrslu. Ef sýslumaður telur einkaskiptagerð og önnur framkomin skjöl fullnægjandi skal hann árita hana um staðfestingu, erfingjar greiða erfðafjárskatt sem sýslumaður reiknar út og með því lýkur einkaskiptum á dánarbúinu.
Eftir að einkaskiptum er lokið bera erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið.