Bótasjóður

Ríkisábyrgð á bótagreiðslum

Þann 1. janúar 1996 gengu í gildi lög nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Um er að ræða ríkisábyrgð á bótagreiðslum vegna grófra ofbeldisbrota, svo sem vegna kynferðisbrota, þar sem oft reynist erfitt fyrir tjónþola að innheimta dæmdar bætur úr hendi tjónvalds.

Tilgangur
Tilgangur laganna er því að styrkja stöðu tjónþola með þeim hætti að ríkissjóður greiði bætur fyrir líkamstjón og miska vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum, svo og fyrir tjón á munum sem leiðir af slíku broti. Andist tjónþoli vegna afleiðinga brots eru greiddar bætur vegna hæfilegs útfararkostnaðar og bætur vegna missis framfæranda.

Bótanefnd
Ákvörðun um greiðslu bóta samkvæmt lögunum er tekin af sérstakri nefnd, bótanefnd. Nefndin ákveður hvort skilyrði bótagreiðslu séu til staðar og fjárhæð bóta.

Skilyrði greiðslna úr ríkissjóði.
Það er almenn forsenda þess að bætur verði greiddar samkvæmt lögunum að brotið hafi verið kært til lögreglu án ástæðulauss dráttar og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu bóta úr hendi tjónvalds. Ákvæði laganna geta einnig, í undantekningartilfellum, gilt þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann sé ósakhæfur eða finnist ekki.

Þörf er á sérstakri umsókn í bótasjóð og getur réttargæslumaður (tilnefndur lögmaður brotaþola) eða talsmaður (lögmaður sem brotaþoli/tjónþoli ræður á sinn kostnað) annast það fyrir brotaþola. Réttargæslumaður eða talsmaður hefur þá milligöngu um að taka á móti greiðslum frá bótasjóði og koma þeim til brotaþola. Krafa um bætur í bótasjóð þarf að berast bótasjóði innan 2ja ára frá því að brot var framið.

Það er jafnframt skilyrði að ákærði hafi verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi og eftir atvikum dæmdur til greiðslu skaðabóta/miskabóta. Þegar dómur hefur gengið um bótakröfuna er almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöður hans. Dæmin sýna að sjaldnast er dómþoli borgunarmaður fyrir dæmdum bótum. Það er því mikil réttarbót fyrir tjónþola að ríkið skuli ábyrgjast bætur til tjónþola. Ríkissjóður á síðan endurkröfu á hendur tjónvaldi.

Bótafjárhæðir
Bótasjóður ábyrgist þó eingöngu greiðslu bóta til handa tjónþola upp að ákveðinni fjárhæð. Bætur vegna einstaks verknaðar eru ekki greiddar úr bótasjóði nema höfuðstóll kröfunnar sé kr. 100.000.- eða hærri. Hámarksbætur sem bótasjóður ábyrgist og greiðir er kr. 600.000.- vegna miska, kr. 2.500.000.- vegna líkamstjóns, kr. 250.000.- vegna munatjóns og kr. 2.500.000.- vegna missi framfæranda.